Flýtilyklar
A! kallar eftir gjörningum
A! Gjörningahátíð kallar eftir gjörningum eða hugmyndum frá listafólki úr öllum listgreinum og öðrum sem hafa áhuga á þátttöku í hátíðinni, sem fram fer 10.-13. október næstkomandi og nú í tíunda sinn. Þátttakendur fá 80.000 krónur í þóknun fyrir þátttöku. Ferðakostnaður er ekki greiddur né tilfallandi kostnaður við verkin, en skipuleggjendur hvetja listafólk til þess að sækja um styrki í menningarsjóði.
Áhugasamir eru beðnir um að senda umsókn á listak@listak.is. Í umsókninni skal fylgja lýsing á hugmyndinni í texta (hámark 1. bls.) og 2-3 fyrri gjörningar á formunum myndir/vídeó/netslóðir. Umsóknarfrestur er til og með 31. mars.
A! er þriggja daga alþjóðleg gjörningahátíð sem haldin er árlega, nú í tíunda sinn. Hátíðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Leikfélags Akureyrar, Menningarhússins Hofs, Gilfélagsins, Vídeólistahátíðarinnar Heim, Listnámsbrautar Verkmenntaskólans á Akureyri og Myndlistarmiðstöðvar. A! er eina hátíðin á Íslandi sem einbeitir sér eingöngu að gjörningalist.
Fjölbreyttir gjörningar og leikhústengd verk af öllum toga eru á dagskránni. Þátttakendur eru ungir og upprennandi listamenn, ásamt reyndum og vel þekktum gjörningalistamönnum, dans- og leikhúsfólki. Á meðal þeirra sem komið hafa fram eru Sigurður Guðmundsson, Gjörningaklúbburinn, Dustin Harvey, Rúrí, Theatre Replacement, Katrín Gunnarsdóttir, Tricycle Trauma, Curver Thoroddsen, Brák Jónsdóttir, Tales Frey, Anna Richardsdóttir, Kuluk Helms, Harpa Arnardóttir, Snorri Ásmundsson, Florence Lam, Olya Kroytor og Dýrfinna Benita Basalan.
Á hverju ári breytir hátíðin Akureyri í suðupott spennandi gjörninga. Ókeypis er inn á alla viðburði. Verkefnisstjóri: Guðrún Þórsdóttir.