HULDA VILHJÁLMSDÓTTIR
HULDUKONA / HIDDEN LADY
25.01.2025 – 04.05.2025
Salur 01
Hulda Vilhjálmsdóttir (f. 1971) útskrifaðist úr málaradeild Listaháskóla Íslands 2000 og hefur síðan haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum, bæði hér á landi og erlendis.
Málverkið hefur ætíð verið Huldu hin staðfasta jörð. Hún málar bæði fígúratíft og abstrakt, vinnur að mestu með akríl og olíu, en hefur einnig sýnt keramíkverk, klippimyndir, vídeóverk og gjörninga. Hulda er leitandi myndlistarmaður, en konan og endurfæðingarkrafturinn hafa verið sterk stef frá upphafi ferilsins.
Konan í verkum Huldu lifir í eigin heimi, oft einræn, jafnvel fjarlæg og fögur, dularfull og sorgmædd. Blái liturinn er einnig áhrifaríkur tónn í verkum Huldu, sem gefur til kynna ljóðrænan trega og rómantík einsemdar.
Ákafi, eldur, styrkur og berskjöldun listamannsins breytist með öguðum pensilstrokum í sköpun á striga og verður að lokum ósk um frið og fegurð í flóknum heimi. Sýningin Huldukona sýnir ólíka þræði í myndlist Huldu Vilhjálmsdóttur, þar sem ljómi listaverksins er í forgrunni – listin fyrir listina.
Sýningarstjóri: Hrafnhildur Gissurardóttir.