Flýtilyklar
Þriðjudagsfyrirlestur: Rósa Kristín Júlíusdóttir
Þriðjudaginn 22. febrúar kl. 17-17.40 heldur Rósa Kristín Júlíusdóttir, myndlistarkona, Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri undir yfirskriftinni Myndlist og myndlistarkennsla. Í fyrirlestrinum mun hún stikla á stóru um nám sitt, myndlist og myndlistarkennslu hennar síðustu fimm áratugi.
Rósa Kristín Júlíusdóttir stundaði nám við Brera lista-akademíuna í Mílanó á Ítalíu undir lok sjöunda áratugarins og í byrjun þess áttunda. Eftir útskrift þaðan starfaði hún í tvö ár sem aðstoðarkennari í háskólanum í Bologna. Eftir Ítalíudvölina bjó hún í fimm ár í Brooklyn í New York í Bandaríkjunum og vann þar með hópi grafíklistamanna. Eftir heimkomu til Íslands fór Rósa fljótlega að skapa textílverk, m.a. úr grisjum og heldur hún enn áfram að þróa slík verk.
Rósa er ein af stofnendum Rauða hússins,listagallerís sem rekið var á Akureyri í byrjun níunda áratugarins. Hún hefur tekið þátt í margvíslegu samstarfi í listinni bæði á Norðurlöndunum og einnig á Akureyri, s.s. í gegnum Samlagið, sem lengi var starfrækt í Listagilinu. Einng lauk hún framhaldsnámi í Finnlandi.
Fyrirlestraröðin er samstarfsverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Menntaskólans á Akureyri og Gilfélagsins. Aðrir fyrirlesarar vetrarins eru: Margrét Katrín Guttormsdóttir, vöruhönnuður, Tricycle Trauma - Jasmin Dasović og Ivana Pedljo gjörningalistamenn, Vala Fannell leikstjóri, og Aaron Mitchell, myndlistarmaður.