Flýtilyklar
Þriðjudagsfyrirlestur: Kenny Nguyen
Þriðjudaginn 10. mars kl. 17-17.40 heldur bandaríski myndlistarmaðurinn Kenny Nguyen síðasta Þriðjudagsfyrirlestur vetrarins í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi undir yfirskriftinni Silk – A Metaphor for Identity. Í fyrirlestrinum, sem fer fram á ensku, útskýrir Nguyen hugmyndir sínar um menningarlega sjálfsmynd, samþættingu og uppflosnun og einnig hvernig hann notar viðkvæmt og fíngert silki til að skapa kraftmikið verk.
Kenny Nguyen vinnur aðallega með blandaða tækni. Í verkum sínum leggur hann áherslu á menningarhlaðið efni í þeim tilgangi að kanna sjálfsmynd, samþættingu og menningarlega uppflosnun. Hann er fæddur og uppalinn í Suður Víetnam og lærði fatahönnun við Arkitekta-háskólann í Ho Chi Minh City og málaralist við háskóla Norður Karólínu fylkis í Charlotte. Verk hans hafa verið sýnd víða s.s. í Frakklandi, Suður Kóreu, Víetnam og Bandaríkjunum.
Þriðjudagsfyrirlestrarnir eru samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Gilfélagsins, Verkmenntaskólans á Akureyri, Myndlistarfélagsins og Háskólans á Akureyri. Aðrir fyrirlesarar vetrarins voru Mireya Samper, myndlistarmaður, JBK Ransu, myndlistarmaður, Marco Paoluzzo, ljósmyndari, Snorri Ásmundsson, listamaður, Ragnheiður Eríksdóttir, tónlistarkona og Kristín Dýrfjörð, dósent við Háskólann á Akureyri.