Flýtilyklar
Þriðjudagsfyrirlestur í Ketilhúsinu: Guðmundur Ármann Sigurjónsson - Að tína upp og miðla
Þriðjudaginn 11. nóvember kl. 17 heldur myndlistarmaðurinn og myndlistarkennarinn Guðmundur Ármann Sigurjónsson fyrirlestur í Ketilhúsinu undir yfirskriftinni Að tína upp og miðla þar sem hann fjallar um 42 ára feril sinn í myndlist.
Guðmundur Ármann hefur starfað sem myndlistarmaður síðan hann lauk háskólanámi frá listaháskólanum Valand í Gautaborg í Svíþjóð árið 1972. Hann hefur haldið yfir 20 einkasýningar og tekið þátt í fjölda alþjóðlegra samsýninga. Hann hóf kennsluferil sinn sem aðstoðarkennari í grafíkdeild Valand listaháskólans en lauk honum í vor eftir að hafa kennt við listnámsbraut Verkmenntaskólans á Akureyri í 14 ár. Árið 2012 lauk hann meistaranámi við Háskólann á Akureyri í kennslugreinum myndlistar og fjallaði lokaritgerðin um sjónmenningu og listnámskennslu við framhaldsskóla í Svíþjóð og á Íslandi.
Enginn aðgangseyrir er á fyrirlesturinn sem er sá sjöundi í röð fyrirlestra sem haldnir eru í Ketilhúsinu á hverjum þriðjudegi kl. 17 undir yfirskriftinni Þriðjudagsfyrirlestrar.
Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri. Á meðal annarra fyrirlesara vetrarins eru Stefán Boulter, Rósa Júlíusdóttir, Giorgio Baruchello og Kazuko Kizawa.
Leit

