Flýtilyklar
Opnun á laugardaginn
Laugardaginn 22. september kl. 15 verður sýning Gústavs Geirs Bollasonar og Clémentine Roy, Carcasse, opnuð í Listasafninu, Ketilhúsi. Carcasse er klukkustundar löng kvikmynd sem myndlistarmennirnir tveir unnu að í sameiningu á árunum 2012-2017. Myndin er nú sýnd í fyrsta sinn í listasafni á Íslandi, en áður hefur hún hefur áður verið sýnd í Berlinische Galerie í Berlín í Þýskalandi og á nokkrum kvikmyndahátíðum.
Um Carcasse skrifar Sjón:
„Þegar hugsað er um fall siðmenninga, liðinna, núverandi og ókominna, er það yfirleitt hrikaleiki hruns þeirra sem birtist okkur í myndverkum og söguljóðum, á tjaldi, lágmynd eða bók. Við sjáum skýjakljúfa nútímans brotna eins og leikfangakastala, hraunöldur gleypa höfuðstaði fortíðar, skipaflota gleymdra heimsvelda þakta hrúðurkörlum og þangi á hafsbotni, yfirgefin virkismusteri á sandblásnum fjallstindum, óvinnandi verkfræðiundur komandi tíma mölvuð af þrautseigum örmum nýrra skóga. Næst dettur okkur í hug fólkið sem var statt í hringiðu eyðileggingarinnar. Þau sem voru á staðnum þegar smæð mannsins varð ljós.
Carcasse er með merkilegri kvikmyndum sem gerðar hafa verið á Íslandi. Svo listræn og persónuleg meðferð formsins er sjaldgæf og fáir kvikmyndagerðarmenn sem þora að fjalla um jafn stórt viðfangsefni. Myndin gefur því ekki aðeins von um að mannkynið finni sér leið í framtíðinni, hún gefur einnig von um að listformið eigi sér framtíð á landinu sem hún var svo fagurlega sköpuð í.“
Sýningin stendur til 4. nóvember og er opin alla daga kl. 10-17 í september en kl. 12-17 í október og nóvember. Aðgangseyrir er 1.500 krónur. Árskort Listasafnsins eru til sölu á 2.500 krónur.
Framleiðendur: Parkadia, Gústav Geir Bollason og Clémentine Roy.
Handritshöfundar: Gústav Geir Bollason og Clémentine Roy.
Klipping: Ninon Liotet.
Kvikmyndataka: Clémentine Roy og Gústav Geir Bollason.
Hljóð: Gábor Ripli.
Leikmynd og leikmunir: Gústav Geir Bollason.
Hlutverk: Sverrir Möller, Gústav Geir Bollason, Lene Zachariassen, Hjörvar Kristjánsson, Anna Elionora Olsen Rosing, Sigurður Þór Guðmundsson, Hildur Stefánsdóttir, Marinó Sveinsson, Ágúst Marinó Ágústson, Elín Heiða Hlinadóttir, Ragnar Þór Jepsen, Þorvaldur Grétar Hermannsson, Axel Frans Gústavsson.