Haust - textar

Arna Valsdóttir 1963
VATNIÐ SYNGUR 3. hluti, 2015
Vídeó

Innsetningin er byggð á verki sem Arna vann fyrir sýninguna Vatnsberinn –Fjall + Kona í Ásmundarsafni, Listasafni Reykjavíkur vorið 2015. Það verk vann hún sérstaklega inn í Kúluna og þróaði ákveðna tækni til að varpa vídeóverki í hring til að skapa ákveðna heild.
Hugmyndafræðilega tengist Vatnið syngur, 3. hluti gjörningi sem Arna flutti árið 1999 í Listasafninu á Akureyri sem hluta af sýningunni Flögð og fögur skinn. Það verk heitir Vatnið vill syngja og var unnið út frá þeirri staðreynd að mannslíkaminn er 70% vatn. Sönglínan í verkinu varð til á því augnabliki sem Arna snerti vatnið og kveikt var á tökuvélinni. 

 

Arnar Ómarsson 1986
ÉG VIL LIFA AÐ EILÍFU, 2015
Sýndarveruleikaþáttur

Verkið er stafrænn sýndarveruleikaþáttur sem gerist á framandi sólarströnd og fjallar um stafræna þrívíddar eftirmynd af höfundinum sem tekst á við þá raun að verða mennskur. Það vekur upp hugmyndir um gervigreind og meðvitund verunnar í einskonar gjörningi þegar listamaðurinn afritar sig og kennir verunni um mennskt eðli. Hér fjallar Arnar um eðli mannsins og samband hans við umhverfið. Verkið fær lánað útlit draumaeyjunnar, þar sem heitir vindar, volgur sjór og heiðskýr himinn tákna hið fullkomna líf. Það er mikilvæg tenging okkar mannanna við eigin veruleikaflótta. 

 

Baldvin Ringsted 1974
BIRD, 2014
Blekpenni á fundin nótnahefti

Baldvin: „Tónlist eða hljóð hefur einhvern vegin alltaf verið meginþema í minni myndlist og hér nálgast ég það viðfangsefni aðallega út frá sjónrænni fagurfræði. Með því að strika yfir, og þar með útmá þær upplýsingar sem alla jafna mætti lesa og túlka með hljóðum, breyti ég þessum blaðsíðum úr lesmáli í myndir. Samt sem áður eru þetta ennþá tónverk, en nú er það undir flytjandanum komið að yfirfæra eða túlka það sem ég hef bætt við hina upprunalegu útgáfu.“ 

 

Bergþór Morthens 1979
THERE´S NO SUCH THING AS A SOCIETY, 2015 / WHEN YOU CAN´T MAKE THEM SEE THE LIGHT, MAKE THEM FEEL THE HEAT, 2015 / THERE IS NO-ONE ON THE WORLD STAGE WHO CAN COMPETE WITH ME, 2015
Vatnslitir, akrýl og olía á pappír og MDF 

Verk Bergþórs ögra viðmiðum portrett-hefðarinnar og daðra við hið gróteska. Viðfangsefnin eru stjórnmálamenn og fólk í valdastöðum, máluð á „hefðbundin“ máta en í stað þess að upphefja viðfangsefnið eru verkin afar lítil og valin eru augnablik sem eru óþægileg á einhvern máta og samhenginu breytt með miðlun listamannsins. Verkin eru fullunnin í ákveðnum stíl en svo kemur til sögunnar annar stíll, meira abstrakt og expressjónískur, sem hylur eða eyðileggur upphaflega verkið og skírskotar til þess að grýta tertu í andlit einhvers sem pólitísk mótmæli en vísar einnig til athafnamálverksins (e. action painting).

 

Björg Eiríksdóttir 1967
10 ÁRUM ELDRI, 2012
Útsaumur í bók
VEISTU HVAÐ MIG DREYMDI?, 2014
Útsaumur

Í myndlistinni eltir Björg innsæið og fylgistt með hvert það leiðir hana. Hugmyndir geta kviknað hvort sem er við sjónræna upplifun, tilfinningu eða hugsun. Manneskjan, líkami hennar og innra líf er oftast viðfangsefnið. Einfaldar myndir úr hversdagsleikanum og nánasta umhverfi vekja áhuga hennar og hún sækist eftir nálægð í verkunum. Olíumálverk, þrykk og útsaumur eru þeir miðlar sem hún hefur mest notað en einnig teikningu, ljósmyndir og vídeó eða það sem henni finnst hæfa hugmyndinni hverju sinni. Vinnan við miðilinn og handverkið er henni mikilvæg.

 

Eiríkur Arnar Magnússon 1975
ÁN TITILS, 2014
Blönduð tækni

Eiríkur Arnar: „Þetta verk er úr þriggja mynda seríu. Málverkin mín eru oftast sprottin út frá tilfinningum og eru ef til vill lýsandi fyrir það hugarástand sem ég er í á þeim tímapunkti. Í mínum huga standa þessi verk fyrir þá tilfinningu að vera frjáls. Verkið er hluti af seríunni Bækur, en þar leitast ég við að upphefja gamalt handbragð og gefa því nýjan tilgang í formi skúlptúr-bókverka. Ég vildi gefa verkunum fornt yfirbragð og göfga hverfult handbragðið sem maðurinn hefur notað í aldanna rás og byggja því musteri. Bókaturnarnir standa naktir og leyndardómur handverksins, öllum til sýnis.“


Freyja Reynisdóttir 1989
VISEM, 2015
Vídeó

Visem: vangaveltur um hugsunarferli. 

Fjölmargar leiðir hafa verið farnar til að skilgreina skynjun. Samkvæmt Biedermans eru frumþættir allra mynda, einföld tvívíð og þrívíð form, nefnd geón. Séu nægar upplýsingar til staðar til að greina eitthvað í geón er hægt að greina sjálfann hlutinn. En smæstu merkingargreinandi einingar tungumálsins nefnast hins vegar fónem. Hljóðkerfi hvers tungumáls er byggt upp af þessum fónemum, sem við heyrum þó aldrei sem slík, því þau eru huglægar eindir í kerfinu. Visem er heild, með hljóðrænu og myndrænu tungumáli Freyju Reynisdóttur, þar sem huglæg brot og abstrakt eindir mynda einingu hennar.

 

Guðmundur Ármann Sigurjónsson 1944
TINDUR, 2014 / SKRIÐJÖKULL, 2014
Olía á léreft

Guðmundur Ármann: „Vatnslitamyndir eru jafn náttúrutrúverðugar og efniviðurinn sem og geta þess sem heldur á penslinum gefa möguleika til. Að mála úti undir berum himni er afar gefandi og skerpir athyglina til fullnustu. Olíumálverkin eru unnin á vinnustofunni með þessar vatnslitamyndir í bakgrunni, þar sem litasamsetningar og formspil náttúrunnar er fært í nokkuð strangari myndbyggingu og brugðið á leik. „Myndlistin býr yfir samræmi hliðstæðu náttúrunni“, er haft eftir Cézanne þegar hann leyfði sér að hnika réttri fjarvídd, einfalda myndefnið og færa undir grunnformin. Nokkuð í þessum anda eru málverkin máluð og jafnvel gengið enn lengra í að brjóta upp form náttúrunnar.“

 

Guðrún Þórisdóttir 1971
SKUGGAMYNDIR, 2013
Blönduð tækni

Verkin eru unnin með blandaðri tækni þar sem vírinn fær hlutverk bleksins í skyssugerð. Hugmyndin er að vinna verkin á sama hátt og skyssur en leyfa skuggunum af verkunum að fullskapa myndina.

 

Gunnhildur Helgadóttir 1980
TUNGUMÁL, 2014
Handmótaður rauðleir, holubrennsla

Tungurnar eru úr rauðleir, handmótaðar, holubrenndar og því eru engar eins. Stingdu Tungumálinu í vasann og taktu það með út í náttúruna svo þú getir fengið þér sopa úr læknum. Slepptu plastflöskunni! Slepptu því að burðast með vatn á bakinu. Gleymist tungumálið út í náttúrunni eins og gjarnan vill gerast í amstri dagsins, þarf vart að örvænta þar sem vandfundnir eru þeir hlutir sem eiga betur með að sameinast móður jörð en leir. Tungumálið kemur í einföldum trékassa, sem er hengdur uppá vegg og er þannig sett fram sem myndverk, þangað til náttúran er heimsótt aftur.

 

Heiðdís Hólm 1991
BREYTTAR ÁHERSLUR, 2015 / FRELSUN, 2015
Akrýl, lakk og glimmer á krossvið

Heiðdís þreifar eftir tilvist sinni í gegnum myndlistina. Verk hennar eru oft sjálfsævisöguleg, pólitísk og yfirleitt sjálfsmyndir að einhverju leyti. Hún kannar breytileika hins stöðuga málverks með nýjum eða óhefðbundnum efnum sem umbreytast með breytingu ljóss, tíma og staðsetningu áhorfandans.

Með verkunum er listamaðurinn að reyna að bæta upp fyrir að hafa ekki tekið þátt í #freethenipple herferðinni (frelsum geirvörtuna) sem fór fram á samfélagsmiðlum í apríl 2015. Þrátt fyrir að vera einungis tuttugu og þriggja ára gömul leið henni eins og hún væri of gömul til að taka þann slag og reynir nú að fela órökrétt samviskubitið með því að koma geirvörtum nútímakvenna á Listasafnið.

 

Hekla Björt Helgadóttir 1985
ÁRABÁTUR PÍPUHATTUR / HÁSÆTI, 2014
Blönduð tækni

Það eru margar birtingarmyndir ljóða. Í bundnu eða óbundnu máli, með stuðlum, höfuðstöfum, eða algjöru frelsi. Ljóð geta líka orðið málverk, klippt og skorin, tónverk og líkamleg tjáning. Og svo eru alltaf ljóð sem aldrei öðlast tilvist. Það eru ljóð skúffuskáldsins, leynilega skrifuð og geymd í þögn. Verkin þrjú eru einmitt ljóð sem hvíla í skúffum, sem þrívíðar allegóríur. Og í þetta sinn geturðu séð þau... þú getur ímyndað þér... 

 

Helga Pálína Brynjólfsdóttir 1953

RAUÐUR FERNINGUR, 2001
Handþrykkt á pappír  

Helga Pálína: „Verk mín eru oft eins og ljóð án orða. Ég leik mér með myndbyggingu og liti, form og áferð.“

 

Ingibjörg Guðmundsdóttir 1980

REACTION OF DWELLING IN EXPANDED
SURROUNDING OF THE INNER, 2013

Salt viðarbrenndur steinleir og konunglegt postulín

Ingibjörg: „Mín list sprettur aðallega frá þemabundnum hugsunum, tilfinningum og munúðarfullum upplifunum af mínu nánasta umhverfi. Ég er safnari: týni upp hluti og gríp hugmyndir sem ná athygli minni. Hugmyndirnar eiga oft upptök sín í fortíð minni og minningum,  undirmeðvitund og tilveru. Hugmyndirnar birtast út frá viðfangsefnum og hreyfingu daglegs lífs sem einhvern veginn vekur þær til lífsins. Ég er frekar opin fyrir umhverfinu og tek eftir áhrifunum sem það hefur á mig og verkin mín. En stundum dvel ég í höfði mínu og þá kemur það fram í verkunum.“

 

Joris Rademaker 1958
ÞREP, 2014 / REKINN Á LAND, 2014
Skúlptúr

Verk Jorisar bera með sér sögu gjöfullar tilraunamennsku og nákvæmni í útfærslu sem heldur áfram frá einu verki og yfir í það næsta. Á þennan hátt hefur Joris skapað fjölmörg verk þar sem stöðug hreyfing leysir upp stíf form. Lífrænn efniviður verkanna miðlar upplifun af hreyfingu og kyrrð – spaghetti, kartöflur, möndlur, hnetur, trébútar og fundnir hlutir, sem standa fyrir einkennilega útgáfu af reglu og óreglu sem er stútfull af lífi. Það er lífræn tilfinning í öllum hans verkum.

 

Jóna Hlíf Halldórsdóttir 1978
GEGGJAÐ BRJÁLAÐ SJÚKLEGT ÆÐI, 2013
Pappírsverk 

Jóna Hlíf vinnur í marga ólíka miðla: vídeó, skúlptúr, bókverk og ljósmyndir. Oft eiga verkin uppruna sinn í hversdagsleikanum en það sem sameinar þau er tengingin við bæði sál og líkama. Sú tenging er talin búa í einu hólfi líkamans þó röntgen-geislar greini það ekki. Sum verka hennar vísa í viðbrögð og breytingar líkamans en önnur miðla spurningum um samband líkama og sálar. Hvað skortir okkur? Hvar staðsetjum við þennan skort í líkamanum? Hvaða aðferðir notum við til að fylla upp í tómarúmið sem hann myndar? 

 

Klængur Gunnarsson 1985 
HYLLING, 2015 / KOMMA (,), 2015
Blönduð tækni / Mixed media

Hylling
Snjóhaugar til vetrarljóssins og biðstaða. Stoppið og sundið, endurtekningin og letin. Fjallkona nútímans.

Komma (,)
Kommur vetrarins, ljósmyndaskúlptúrar. Fegurðin í mætingu ljóss og myrkurs þegar dagur klárast of snemma eða var jafnvel aldrei til. Norðrið er dimmt en bláið er mjúkt.

 

Marina Rees 1981
MOUNTAIN SPIRITS, 2014 / COCOON, 2014 / CREVASSESS AND UNTOLD STORIES
Blek á pappír / Fundið hvalbein, viðarkol

Marina: „Mín listsköpun hefur alltaf verið innblásin af náttúrufræði og sambandi okkar við hana. Verkin geta verið unnin í mismunandi miðla s.s. skúlptúra, teikningar og innsetningar. Frá því að ég flutti til Íslands, fyrir tveimur árum hef ég haft sérstakan áhuga á skilningi okkar á hinu efnislega, formum og áferð náttúrulegra þátta sem og leyndardómum landslags, en einnig hinu ósýnilega í landslaginu og ómennskum verum.

 

Ragnheiður Björk Þórsdóttir 1958
UMBREYTING, 2011
Vefnaður í daladregilstækni

Ragnheiður Björk: „Menningararfur okkar Íslendinga í myndlist og textíl er mér hugleikinn. Ég nýti mér gjarnan þennan oft svo ósýnilega auð þegar ég vef textílverk. Undanfarin ár hef ég meðal annars unnið að verkum sem ofin eru með einni elstu vefnaðartækni sem notuð var hér á landi; röggvarfeldsaðferðinni. Einnig hef ég unnið að verki með tækni íslenska glitsins sem sprottin eru upp úr gömlu söðuláklæðunum og verk út frá borðdúkamunstrum sem mæður okkar og ömmur ófu. Þau set ég upp á vegg þeim til heiðurs.“


Rannveig Helgadóttir 1971
HEILÖG MANDALA, 2014
Akrýl á striga

Mandala er reglubundin formgerð unnin út frá möndli og myndar munstur. Orðið mandala kemur úr sanskrít og merkir „heilagur hringur“ eða „hringur eilífðarinnar“. Mandala er einskonar tákn alheimsins og Guðseðlisins. Í þúsundir ára hafa frumbyggjar Norður-Ameríku, hindúar og búddistar notað mandölur í hugleiðslu til að skerpa meðvitund sína og koma á samræmi líkama, hugar og anda. Skilgreining mandölu er að finna í vísindum, trúarbrögðum og list.

 

Rósa Júlíusdóttir 1945
UNDIR YFIRBORÐINU, 2011
Akrýl á grisju og útsaumur

Rósa: „Af hverju að búa til myndverk úr þunnu klæði (bómullargrisju) en ekki mála á striga og nota nál og þráð? Eftir að hafa lært málun leitaði ég fljótt í aðra miðla, mjúkt klæði, nál og þráð, útsaum; miðla sem einkenndu frekar handverk kvenna. Ef til vill eru það minningar úr æsku, konur að sauma, mæður, ömmur, eða ef til vill líkamleg og sjónræn ánægja/unun sem fylgir því að vinna með þunnt klæði, og nota þráð og nál. Markmiðið er þó líklega það sama; að snerta skilningarvitin.“

 

Rósa Sigrún Jónsdóttir 1962

HÁRSBREIDD, 2015 / 
ÁI, 2015
Mannshár í pappír / Ljósmynd 

Rósa Sigrún: „Ég er alin upp við handavinnu og margvíslega textíliðju móður minnar. Þannig held ég að handverkið sé rótfast í sálu minni og mér finnst áhugavert að reyna á þanþol þessa efniviðar og aðferða sem eiga svo djúpar rætur í menningarheimi kvenna.“

 

Sam Rees 1981
CHIHUAHOUSE, 2011

Klippimynd og teikning

Allt frá teikningum annarra til listlíkisverka frá skransölum og ómerkilegs drasls af flóamörkuðum. Fundnir hlutir eru undirstaðan sem verkin byggjast í kringum. Með áherslu á jaðarþætti fara verkin ólíkar leiðir, mitt á milli innherja og utanaðkomandi, teiknimyndasögu og listar, góðs smekks og smekkleysu.

 

Stefán Boulter  1970

FINNUR, 2015
ARON, 2013

Olía á striga


Stefán:
„Verkin mín eru einskonar andleg dagbók. Þau fjalla bæði um mitt innra líf og það sem er sjáanlegt á striganum. Myndirnar eru þannig persónulegar táknmyndir og þegar vel tekst til skynjar áhorfandinn það sem bindur okkur öll saman sem mannverur, hið sammanlega. Ég hef áhuga á því sem við þekkjum en vitum ekki endilega af hverju við þekkjum það. Handverkið er í mínum huga rödd eða eins og ég kýs að kalla það, tungumál sálarinnar. Í handverkinu fellst innihaldið, það er lykillinn. Ég forðast að nota tákn sem eru augljósar vísanir í samtímann. Í verkum mínum skoða ég mitt nánasta umhverfi, sjálfan mig, vini, fjölskyldu, hluti og dýrin sem við deilum lífinu með og þá áru sem mér finnst þau hafa.“ 

 

Unnur Óttarsdóttir 1962
ENDURVARP, 2015
Speglar í viðarkössum

Unnur: „Ég trúi því að allir menn séu tengdir. Megin áhersla Endurvarps felst í þeim tengingum sem listaverkið getur kveikt innra með áhorfandanum. En líka í tengslum sem verða til milli tveggja einstaklinga þegar þeir takast sameiginlega á við speglunarkassana sem til sýnis eru.“

 

Victor Ocares 1986
BINARY #1, #6, #9
Blek á pappír

-Athöfnin að mála mynd strípaða litum er eins og bardagi. Blekið leggst ofbeldisfullt á hvítt blaðið og flöturinn fyrirgefur hvorki hik né efa.
-Pappírinn tekur best á móti frumhvötum eins hlátri, þegar allt hefur verið strípað burt þýðir ekki að ljúga.-Höndin þarf að vera hröð og örugg en aldrei stífna, aldrei taka yfir.

Hvítur pappír og blek eru hér í aðalhlutverki en „monochrome“ hefur verið stöðugur þráður í listsköpun Victors; ekkert ákveðið fyrirfram og viðfangsefninu leyft að birtast sem samtal.
Sterk tenging í vinnuferli sem og miðli við hin buddísku fræði „Hitzuendo“ þar sem fyrir hvert blað er aðeins ein tilraun til að skapa með penslinum; hver stroka sem spor eftir veru þess sem setti hana á blað.

 

Þóra Sigurðardóttir 1954
TEIKNING, 2015
Prent

„Teikningar Þóru leiða áhorfandann í ferðalag þar sem efni og form hafa umbreyst í samhengi sínu við umheiminn. Líta má á teikningar Þóru sem ferli umbreytinga sem tengjast niðurbroti efnisins og úrvinnslu holdsins sjálfs á efnahvörfum líkamans. Verkin kallast á við stund og stað, hér og nú, orsök og afleiðingu.”

Úr texta Helgu Þórsdóttur um verk Þóru í sýningarskrá RÁS 2014.

 

Þóra Sólveig Bergsteinsdóttir 1975
ODE TO NATURE, 2015
Vídeó gjörningur

Í listinni hefur Þóra Sólveig rannsakað líkama, hreyfingu og náttúru, síðan hún útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2004. Hún gerir m.a. verk sem fást við andlega og líkamlega nærveru og tengsl manns og náttúru. „Ég hef alltaf verið í náinni snertingu við náttúruna og þetta samband er kjarninn í starfi mínu sem listamaður, segir Þóra Sólveig.“  Verk hennar samanstanda af gjörningum, myndböndum, ljósmyndum og innsetningum.

 

Þórarinn Blöndal 1966
ENDURGERÐ – leitin að póesíunni heldur áfram, 2015
Skúlptúr og ljósmynd

Áform um “Road Thriller” vaknaði enn og aftur síðastliðið vor. Sýningin Staðsetning í 002 gallerí í Hafnarfirði var síðan eins konar vegvísir að þeim leiðangri sem nú er hafinn. Gamalkunn árátta og þrá eftir hinu óvænta ráða mestu um hvert skal haldið. Skimað verður eftir frummyndum, leitað eftir slóðum og myndvísum sem breyta för. Farangur er um margt kunnuglegur, mikill að umfangi og margþvældur. Bætt verður í á hverjum stað og hlaðið utan á farartækið sem þannig verður hýsill táknmynda og vegvísa. Í fyrsta áfanga lá leiðin í Alþýðuhúsið á Siglufirði þar sem farangur var endurskipulagður og nýjir hlutir fengu pláss. Fór vel á því að næsti stoppistaður væri Listasafnið á Akureyri og maníur gærdagsins endurvakna.  

 

Þórgunnur Oddsdóttir 1981
SAFN, 2009 / ÞÝSKIR VARÐTURNAR, 2014
Skúlptúr / Ljósmyndir

Allt er efniviður. Minningarnar í höfðinu, sögurnar í heita pottinum, greinarnar á göngustígnum og dótið sem enginn man lengur hvaðan kom. Allt er eitthvað. Og allt hefur möguleika á að verða eitthvað allt annað: sena í nýrri sögu sem þó er ævagömul. Glænýr vitnisburður um hverfulleikann.